Í desember 2019 sáu jarðvísindamenn fyrstu merki um kvikuhreyfingar á 3-7 km dýpi undir Fagradalsfjalli. Það varð fljótlega ljóst að hafin var atburðarrás neðanjarðar sem gæti leitt til eldgoss en ekki hafði komið upp eldgos á Reykjanesskaga í næstum 800 ár.

Á þessum tíma var Umhverfisstofnun ekki með neinar loftgæðamælistöðvar á Suðurnesjum.

Fyrsta gosið hófst svo í mars 2021 en áður en gaus hafði Umhverfisstofnun þegar náð að setja upp til bráðabirgða eina loftgæðamælistöð í Vogum sem mældi brennisteinsdíoxíð gas (SO2).


Við uppsetningu á loftgæðamæli í Vogum

Á vikunum þar á eftir bættust við fjórir aðrir SO2 mælar sem settir voru upp til bráðabirgða í ýmiskonar húsnæði í Reykjanesbæ. Þetta voru mælar sem stofnunin fékk lánaða en einnig var um að ræða gamla mæla sem hætt var að nota og voru komnir að lokum síns líftíma. Húsnæði sem mælarnir voru settir upp í hentaði líka mjög mis vel til loftgæðamælinga.


Bráðabirgðamælum var komið upp í Reykjanesbæ

Eftir því sem leið á varð ljóst að eldsumbrot gætu staðið yfir með hléum árum saman og því taldi Umhverfisstofnun nauðsynlegt að styrkja mælinetið með fleiri nýjum mælum sem væru staðsettir í þar til gerðum mælihúsum. Stofnunin fékk því fjármagn í að styrkja verulega mælinetið á Suðurnesjum enda hafði sýnt sig að það almenningur á Suðurnesjum var að fylgjast mjög vel með niðurstöðum úr þessum mælum meðan eldgos voru í gangi.


Eldsumbrot á Reykjanesi eru talin geta staðið yfir árum saman

Sumarið 2024 verða sett upp sjö ný mælihús fyrir loftgæðamæla á Suðurnesjum með nýjum fullkomnum SO2 gasmælum og veðurmælingum á hverjum stað. Húsin og mælitækin verða sett upp í Garði, Sandgerði, Keflavík, Njarðvík, Ásbrú, Höfnum og Vogum.

Það að setja upp nýja mæla í sérhönnuðu húsnæði eykur verulega rekstraröryggi mælinganna auk þess sem veðurmælingar samhliða loftgæðamælingum auka úrvinnslumöguleika loftgæðamælinganna sem aftur hjálpar til að við að greina sem best og skilja hegðum gosmakkarins hverju sinni.