Þjóðgarðsmiðstöð fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð var opnuð formlega þann 23. mars 2023 á Hellissandi. Við þetta tækifæri fékk þjóðgarðurinn nýtt merki og nafni þjóðgarðsins breytt í Snæfellsjökulsþjóðgarð (var áður Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull).
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði húsnæðið formlega en einnig voru viðstaddir fyrrverandi umhverfisráðherrar sem komið hafa að verkefninu.
Við opnunina skrifaði Guðlaugur Þór undir nýja stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn.
Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi er lyftistöng fyrir ferðaþjónustu og samfélagið allt á Snæfellsnesi. Þar hafa farið fram tónleikar, ráðstefnur og ýmsir viðburðir sem efla menningar- og fræðasamfélagið.
Í þjóðgarðsmiðstöðinni er gott kennslurými til að taka á móti skólahópum á öllum stigum. Rými er til staðar fyrir tímabundnar sýningar um sögu, listir og vísindi. Þá er einnig minjagripasala, veitingasala og tímabundin skiltasýning sem fjallar almennt um þjóðgarðinn.
Framundan er vinna að sýningu sem mun höfða til breiðs hóps, jafnt heimafólks sem innlendra og erlendra gesta. Sýningin mun bjóða upp á leiðsögn um mannheima, náttúruna og dulræna heima í fylgd þjóðsagnapersónunnar Bárðar Snæfellsás. Gert er ráð fyrir að sýningin flæði fallega um rýmið, gefi svigrúm fyrir tímabundnar sýningar og aðra menningartengda atburði. Sýningin er hönnuð af Kvorning Design og Yoke frá Danmörku og Verkstæðinu frá Íslandi sem áttu vinningstillögu í hönnunarsamkeppni um sýningu í þjóðgarðsmiðstöðinni. Áætlað er að sýningin opni haustið 2024.
Þjóðgarðsmiðstöðin er fullhönnuð og byggð út frá alþjóðlega umhverfisvottunarstaðlinum BREEAM
Hönnuðir þjóðgarðsmiðstöðvarinnar voru Arkís arkitektar sem unnu hönnunarsamkeppni árið 2006. Byggingin skiptist í þrennt:
Í Snæfellsjökulsþjóðgarði starfa 6 heilsársstarfsmenn og yfir sumarmánuði starfa fjórir til fimm landverðir þar að auki.