Umhverfisstofnun leggur sig fram við að vinna að gildandi markmiðum úr stefnu stofnunarinnar með framsýni, samstarf og árangur að leiðarljósi.
Umhverfisstofnun stofnaði þverfaglegan starfshóp um umhverfisheilsu (e. public health). Leiðarljós hópsins er að veita faglega ráðgjöf um áhrif umhverfis á heilsu fólks. Hópurinn starfar í samræmi við stefnu Umhverfisstofnunar þar sem áhersla er lögð á heilnæmi.
Morgunfundur Svansins fór fram í Björtuloftum í Hörpu þann 15. febrúar. Yfirskrift fundarins var: Fortíðin er búin, framtíðin er snúin: Hvaða ákvarðanir leiddu okkur hingað og hvernig mótum við morgundaginn?
Dagana 13. – 17. febrúar fór fram vinnustofa um gerð stjórnunar- og verndaráætlana tegunda. Til umfjöllunar voru tvær tegundir, rjúpa og lundi. Vinna við stjórnunar- og verndaráætlanir beggja tegunda hófst á árinu.
Nýjar leiðbeiningar með viðmiðunarmörkum fyrir mengun jarðvegs voru gefnar út. Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitin á landinu tóku í gagnið gagnvirka kortasjá og skráðu inn þekkt menguð svæði og svæði þar sem grunur er um mengun.
Umhverfisstofnun uppfærði stefnu sína til ársins 2025. Í stefnumótunarvinnunni var skerpt á markmiðum stofnunarinnar í samræmi við stefnumótun ríkisaðila. Stuðst var við ábendingar úr ýmsum áttum, til dæmis frá fagráðuneyti, hagaðilum og starfsfólki Umhverfisstofnunar.
Einstakar jarðminjar fundust í helli sem uppgötvaðist þegar unnið var að framkvæmdum við jarðböðin í Mývatnssveit. Hellinum var lokað til þess að vernda jarðminjarnar.
Ný viðmið fyrir Svansvottaðar nýbyggingar tóku gildi. Í kjölfarið var haldin opin kynning á nýju viðmiðunum þar sem farið var yfir helstu breytingar.
Ný þjóðgarðsmiðstöð í Snæfellsjökulsþjóðgarði var opnuð formlega. Einnig var endurnýjuð stjórnurnar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn staðfest.
Réttindanámskeið heilbrigðisfulltrúa var í fyrsta sinn algjörlega stafrænt. Námskeiðið var fært yfir á stafrænt form til að bæta aðgengi og þjónustu við þátttakendur.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi var 14,1 milljón tonn af CO2-ígildum árið 2021 og hafði aukist um 6% frá árinu 1990. Þetta kom fram í Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda 2023.
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Goðafoss var staðfest. Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring.
Loftslagsdagurinn fór fram í Silfurbergi í Hörpu. Þar fluttu 18 fyrirlesarar erindi um loftslagsmál á mannamáli. Um 350 gestir tóku þátt í salnum og rúmlega 250 í streymi.
Losun frá flugi jókst um 101% og losun frá iðnaði jókst um 1,9% og milli áranna 2021 og 2022. Þetta kom fram í árlegu uppgjöri losunar þeirra fyrirtækja sem falla undir ETS kerfið á Íslandi.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofunar, settu átakið Strandhreinsun Íslands formlega af stað í fjörunni í Geldinganesi. Strandhreinsun Íslands er 5 ára átak í hreinsun strandlengju Íslands af plasti og öðrum úrgangi.
Umhverfisstofnun bætti við aðstöðu sína fyrir starfsfólk í Bankanum á Selfossi. Með þessu hélt stofnunin áfram verkefni undanfarinna tíu ára að bjóða upp á starfsaðstöðu vítt og breitt um landið.
Losun á þrávirkum lífrænum efnum dróst saman á Íslandi. Þetta kom fram í Landsskýrslu um losun loftmengunarefna á Íslandi fyrir tímabilið 1990-2021. Muninn mátti að mestu skýra með fækkun sorpbrennslustöðva og hertari reglum um sorpbrennslu.
Samstarfsverkefnið Allan hringinn var sett af stað. Markmið verkefnisins var að kynna breytingar í úrgangsmálum í kjölfar nýrra laga. Ein stærsta breytingin var skyldan til að flokka heimilisúrgang í sjö flokka: Pappír, plast, matarleifar, málma, gler, textíl og spilliefni.
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn Spákonufellshöfða var staðfest. Spákonufellshöfði gengur í sjó fram vestan við byggðina á Skagaströnd og er vinsæll til útivistar.
Bessastaðanes var friðlýst við hátíðlega athöfn. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægur áfangastaður farfugla.
Í júlí hófst eldgos að nýju á Reykjanesskaga. Eldgosinu fylgdu fjölmörg verkefni eins og mælingar á loftgæðum, landvarsla og leyfisveitingar.
Breyting varð á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimild til veitingar undanþágu frá starfsleyfi var færð frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til Umhverfisstofnunar og nefnist bráðabirgðaheimild.
Umhverfisstofnun ákvað að leggja stjórnvaldssekt á Costco Wholesale Iceland ehf. að upphæð 20.000.000 króna vegna brota á ákvæðum um mengunarvarnir. Brotin leiddu til þess að a.m.k. 111.000 lítrar af dísilolíu losnuðu út í fráveitu Hafnarfjarðar og út í sjó.
Losun sem féll undir beina ábyrgð Íslands stóð í stað milli áranna 2021 og 2022. Losun sem féll undir staðbundinn iðnað innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (e. ETS) jókst um 2% á sama tímabili. Losun frá alþjóðasamgöngum jókst umtalsvert en sú losun féll að hluta til innan ETS kerfisins.
Dagana 21. – 25. ágúst fóru fram rannsóknir á jarðvegi á Heiðarfjalli í Langanesbyggð. Fulltrúi Umhverfisstofnunar tók þátt í rannsóknunum ásamt sérfræðingum frá Norwegian Geotechnical Institute. Frumrannsókn sem fór fram árið 2017 gaf til kynna að svæðið væri mjög mengað.
Umhverfisstofnun fór af stað með átak í að safna upplýsingum frá almenningi um mengaðan jarðveg og skrá þær inn á kort. Markmiðið var að fá betri yfirsýn yfir menguð svæði á landinu og halda þeim til haga fyrir komandi kynslóðir.
Umhverfisstofnun lauk uppgjöri á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir seinna tímabil Kýótó-bókunarinnar. Tímabilið náði frá 2013-2020.
Niðurstöður nýrra mælinga á matarsóun sýndu að matarsóun á Íslandi jafngildir um 160 kílóum á hvern íbúa á ári. Tæpur helmingur allrar matarsóunar á Íslandi á sér stað í frumframleiðslu matvæla en um 40% á heimilum.
Saman gegn sóun stóð fyrir hugmyndasmiðju um lausnir gegn raftækjasóun. Markmiðið var að finna lausnir á vanda raftækjaiðnaðarins og þróa og skapa í framhaldinu lausnir sem sporna gegn raftækjasóun.
Fransk-íslenska hönnunarfyrirtækið SP(R)INT STUDIO ásamt Nissen Richards Studio bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni um sýningu í nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit.
Líffræðilegum fjölbreytileika hrakar og búsvæðum lífvera í Norðaustur-Atlantshafinu heldur áfram að hnigna. Þetta voru meðal helstu niðurstaða nýrrar skýrslu á vegum OSPAR-samningsins um ástand Norðaustur-Atlantshafsins og aðliggjandi hafsvæða.
Surtsey varð 60 ára á árinu. Í tilefni af afmælinu átti að halda málþing í Vestmannaeyjum. Aflýsa þurfti viðburðinum vegna jarðhræringa á Reykjanesi.
Fulltrúar Grænna skrefa héldu stafrænar kynningar fyrir þátttakendur í verkefninu Greening Government Initiative, kynningin var skipulögð af Hvíta húsinu í Bandaríkjunum. Grænu skrefin voru einnig kynnt fyrir starfsfólki breska stjórnarráðsins.
Tveir fulltrúar Umhverfisstofnunar sóttu 28. aðildarríkjaþing Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (COP28) sem haldið var í Dubai.
Umhverfisstofnun lagði fram til kynningar áform um að veita til breytingar á vatnshlotinu Þjórsá 1, vegna framkvæmda við Hvammsvirkjun.