Umhverfisstofnun leggur áherslu á að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Stefnt er að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en jafnframt að samdrætti umhverfisspors í víðara samhengi.

Samdráttur var í heildarlosun frá starfsemi Umhverfisstofnunar, skiptimarkaðir héldu áfram að blómstra og Umhverfisstofnun lenti í þriðja sæti í Hjólað í vinnuna


Andri Stefánsson, framkvæmdarstjóri ÍSÍ og Þorbjörg Sandra Bakke, teymisstjóri í teymi hringrásarhagkerfis / Mynd: ÍSÍ

Losun vegna flugs virðist á réttri leið

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi stofnunarinnar dróst saman milli ára og var 15% lægri en árið 2022. Markmið Umhverfisstofnun til ársins 2030 kveður á um 40% samdrátt á stöðugildi frá árinu 2018 til ársins 2030. Árið 2023 var heildarsamdráttur í losun tæplega 25% minni en viðmiðunarárið 2018 sem bendir til þess að stofnunin nái settu markmiði ef álíka samdráttur verður næstu árin.

Losun vegna aksturs

Akstur er stóri þátturinn í losun frá Umhverfisstofnun. Losun frá akstri dróst saman á milli áranna 2022 og 2023 sem skýrist meðal annars af aukinni notkun á rafbílum.

Stefnan hefur verið að færa landvörslu yfir á rafbíla og var meðal annars tekið stórt skref 2020 í rafbílavæðingu og aftur á árinu 2023. Einnig er þetta stefnan þegar kemur að notkun leigubíla og bílaleigubíla á vegum stofnunarinnar. Þegar um er að ræða stærri bíla í hálendislandvörslu ganga orkuskipti hægar en með bíla á láglendi.

Losun vegna flugs eykst en á réttri leið miðað við viðmiðunarár

Heildarlosun frá flugi árið 2022 var 34,42 CO2 (tonn) en var árið 2023 41,49 CO2 (tonn) sem þýðir að heildarlosun eykst um rúm 20%. Einnig eykst hún miðað við stöðugildi um tæp 11%. Mikill samdráttur hefur orðið í losun frá flugi frá árunum 2018 og 2019 svo við erum á réttri leið miðað við markmið okkar fyrir árið 2030, en það þarf að passa að flugið dragist saman á næstu árum.

Samgöngusamningar

Í viðleitni til að hvetja starfsfólk til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta býður stofnunin upp á samgöngusamninga.

Árið 2022 varð mikil aukning í að starfsfólk gerði samgöngusamning við stofnunina en samgöngusamningum fækkar lítillega á árinu 2023 þrátt fyrir að styrkur hafi hækkað í krónum talið og er nú 10.000 kr á mánuði fyrir þá sem ferðast með umhverfisvænni hætti 4 daga vikunnar. Tæpur helmingur starfsmanna gera samgöngusamning eins og staðan var á árinu 2023.

Gera mætti átak í að kynna samningana fyrir starfsfólki, enda líklegt að mun stærri hluti starfsmanna geti að minnsta kosti nýtt sér sumarsamning eða hálfan samning.

Úrgangur

Úrgangur sem féll til hjá stofnuninni árið 2023 var tæp 30 kg á hvert stöðugildi, sem er minnkun frá 2022. Erfitt er að festa hendur á hvað skýrir minnkun í úrgangsmyndun á milli ára en þetta er góð þróun. Úrgangsmyndun er töluvert minni en hún var fyrir árið 2019 sem má teljast jákvæð þróun. Mælingar Umhverfisstofnunar ná ekki yfir úrgangsmyndun vegna reksturs náttúruverndarsvæða og framkvæmda. Áhugavert væri að finna leiðir til að ná utan um heildarúrgangsmyndun stofnunarinnar svo hægt sé að gera úrbætur.

Flokkunarárangur

Endurvinnsluhlutfall lækkaði talsvert á milli áranna 2021 og 2022 en stendur í stað milli 2022 og 2023 og er tæp 83%. Flokkunarárangurinn var yfirleitt í kringum 90% fyrir 2020 . Hluti af ástæðunni getur verið samdráttur í magni úrgangs, en hér þarf að gera betur.

Prentpappír og vottanir

Pappírsnotkun vegna útprentunar hefur minnkað á milli ára og við prentuðum út 2,7 kg af pappír á stöðugildi 2023. Dregið hefur mjög úr notkun pappírs m.a. vegna þess að flest bréf og reikningar frá stofnuninni eru nú send á rafrænan máta. Áfram er allur prentpappír sem notaður er í stofnuninni vottaður, en bæta þarf hlutfall umhverfisvottaðra prentsmiðja sem við skiptum við en þróunin árið 2023 er í jákvæða átt eða rúm 90%.

Skiptimarkaðir í samstarfi við nágranna

Á árinu var fjöldinn allur af skiptimörkuðum fyrir starfsfólk. Má þar nefna fataskiptimarkað, búningaskiptimarkaði og jólaskiptimarkað. Með þessu er starfsfólki gert einfaldara að vera umhverfisvænt í einkalífi sínu á sama tíma og því eru einfaldaðir hlutir sem þau þyrftu annars að gera eftir vinnu. Bæði umhverfisvænna og dregur úr álagi á starfsfólk. 2023 var sú nýbreytni að stofnanir sem deila húsnæði með Umhverfisstofnun fengu að taka þátt í fataskiptimarkaðinum og kom það skemmtileg út!


Hjólað í vinnuna

Umhverfisstofnun lenti í þriðja sæti í Hjólað í vinnuna í sínum flokki árið 2023 en hafði unnið árið 2022. Alls tóku 67 vinnustaðir þátt í þessum flokki svo árangurinn má teljast mjög góður. Eins og áður þá voru hjól starfsmanna yfirfarin af DR BÆK og öðrum hjólaviðgerðaraðilum.