Ávarp forstjóra

Kristín Linda Árnadóttir - forstjóri

Morgundagurinn nær en þig grunar

Ársskýrsla Umhverfisstofnunar kemur nú út í fyrsta skipti á rafrænu formi og er að mörgu leyti frábrugðin fyrri ársskýrslum. Áhersla er lögð á knappt og aðgengilegt mannamál, ágrip verkefna og skilaboða. Ef tölur, myndir, sögur og annað efni í ársskýrslunni eflir þekkingu almennings á verkefnum og starfsfólki Umhverfisstofnunar er tilgangnum náð. Við förum yfir nokkur helstu markmið sem Umhverfisstofun hefur sett sér og gilda til 2022 og setjum fram staðreyndir. Rýnum hvað hefur verið gert og reisum nýjar vörður til framtíðar.
Að þessu sögðu langar mig að segja ykkur litla sögu. Við dóttir mín sátum saman og horfðum á sjónvarpsfréttir. Ein setning féll í fréttinni sem vakti hjá dóttur minni ein sterkustu viðbrögð sem ég hef orðið vitni að. Viðskiptavinur var í verslun í mesta sakleysi að kaupa vöru, pakkaða inn í plast, en innan við ysta plastlagið voru meiri plastumbúðir eins og oft er. Viðskiptavinurinn spurði hvort þetta væri ekki bara „seinni tíma vandamál“ og dóttir mín upplifði að samfélagið væri að segja við hana að neysla okkar í dag væri ekki okkar vandi heldur verkefni komandi kynslóða að leysa.
Við könnumst við þennan þankagang, við kaupum of oft það sem okkur langar að kaupa án umhugsunar, bæði án þess að velta fyrir okkur umhverfisáhrifunum eða jafnvel hvort við höfum efni á vörunni eða þurfum raunverulega á henni að halda. Við vonumst til að síðar muni eitthvað breytast, bæði hjá okkur og umheiminum, eitthvað sem réttlæti neyslugleði okkar og umbúðafargan, við trúum að um síðir verði allt í lagi.
En kjarni umhverfismála í dag er í raun sá að okkar neysla, hvað við erum að gera eða gera ekki, verður svo sannarlega seinni tíma vandamál ef við grípum ekki til aðgerða nú þegar. Vandamálið er að með því að bíða og vona, telja að þeir sem á eftir okkur koma geti leyst vandamálin, getur sú alvarlega þróun orðið að vandamálin verði óleysanleg. Þetta er í raun ekki flókið reikningsdæmi, því lengur sem við bíðum með að breyta því sem breyta þarf því stærra verður vandamálið. Það þýðir ekki að bíða bara og vona.
Margt hefur áunnist í umhverfismálum en það þarf að gera miklu meira og Umhverfisstofnun mun leggja sitt að mörkum til að við náum nauðsynlegum árangri. Við viljum vinna að þessu með almenningi, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Nefna má nokkra samstarfsfleti. Sveitarfélög þurfa betri upplýsingar um raunlosun gróðurhúsaloftegunda hvers og eins. Það er gríðarlega mikilvægt til að allir vinni á grunni sömu upplýsinga. Við látum sveitarfélögum nú þegar í té upplýsingar um úrgang sem verður til á þeirra starfsvæði. Nú þurfum við að taka næsta skref. Við þurfum líka að hvetja fyrirtæki til að keppast innbyrðis til að ná sem mestum árangri í hinu nýja kolefnislausa og hringræna hagkerfi. Við þurfum að fara yfir okkar regluverk og sjá hvernig við getum í raun ýtt undir nýsköpun. Við verðum að horfast í augu við það að regluverkið er ætlað fyrirtækjum í rekstri sem tilheyrir nútíð og fortíð. Hvernig getum við breytt regluverkinu þannig að það ýti undir og styðji nýsköpun án þess að gefa eftir kröfur sem vernda heilsu fólks og umhverfið frá mengun?
Stofnanir ríkisins þurfa að sýna sérlega gott fordæmi og Umhverfisstofnun hefur náð miklum árangri í umhverfismálum í rekstri. Yfir 90% af úrgangi sem fer frá stofnuninni hefur verið flokkaður og þannig tryggt að hann fari í réttan farveg, verði að hráefni en ekki mengun. Þetta var hægt með samstilltu átaki starfsmanna Umhverfisstofnunar sem hefur byggt upp kúltur samábyrgðar.
Við viljum líka ná til ferðamanna, innlendra sem erlendra sem ferðast um okkar land. Ferðaskömm er nýyrði sem vísar til þess að fólk sem er meðvitað um kolefnisfótspor ferðalaga fer að skammast sín fyrir þau vegna áhrifa á loftslagið. Við viljum vinna að því að tryggja að okkar innviðir á friðlýstum svæðum ýti undir kolefnislaus ferðalög. Það þarf að bjóða upp á hleðslu fyrir rafmagnsbíla og styrkja hvata svo fólk geti ferðast um gangandi eða hjólandi innan svæða og milli svæða. Við eru byrjuð á því að ýta að ferðamönnum íslensku kranavatni til drykkjar og hvetjum til notkunar fjölnota brúsa. Við þurfum líka að standa betur að fræðslu um áhrif loftslagbreytinga á náttúruna. Átak í friðlýsingum sem miðar að því að fjölga friðlýstum svæðum styður því bæði að við tökum frá svæði fyrir náttúruna sjálfa en getum ekki síður boðið upp á innviði og fræðslu um kolefnislausan ferðamála.
Hvar viljum við vera árið 2040? Hvað er kolefnishlutlaust Ísland árið 2040? Verður það alveg eins og núna nema rafmagnsbílar út um allt? Nei, margt annað verður að breytast til að við náum þeim árangri sem þarf að ná. Ferðumst við kannski eftir 20 ár ekki lengur á einkabílum almennt heldur með almenningssamgöngum? Svörin við þessum spurningum þurfum við að finna sem fyrst – því morgundagurinn er nær en okkur grunar!
Ekki er að efa að úrtölumenn hafa á öllum tímum talað gegn breytingum. Við færðum okkur úr því að hita hús með kolum og olíu og fórum að hita húsin okkar með heitu vatni. Ég er viss að að þá voru ýmsir úrtölumenn sem töldu breytinguna hið mesta óráð. Úrtölumenn sem héldu fram að það væri mun ódýrara að hita með kolum eða olíu, úrtölumenn sem bentu á að heitt vatn væri hættulegt. Í dag dettur engum í hug að hitaveitan hafi verið annað en gæfuskref. En getur hugsast að svipaðar úrtöluraddir heyrist nú varðandi rafmagnsbíla, almenningssamgöngur og neyslu?
Með von um aukna umhverfisvæna meðvitund.
Kristín Linda forstjóri Umhverfisstofnunar

Loftslagsmál og bætt loftgæði

Við veitum þér upplýsingar

Mikil umræða hefur orðið um svifryk undanfarið en ekki er víst að allir viti hvar nálgast ber upplýsingar um svifrykstölur – eða hvað tölurnar þýða? Ímyndum okkur íbúa á höfuðborgarsvæðinu, Jónu Jónsdóttur, miðaldra konu sem býr við Miklubraut í Reykjavík. Hún er með örlítinn astma en veit ekkert skemmtilegra en að skokka í eigin hverfi. Að loknum hlaupum suma daga líður þó Jónu ekki nógu vel. Hún fer á heimasíðu Umhverfisstofnunar og hefur samband með tölvupósti við loftgæðasérfræðing sem segir henni að loftmengun aukist nálægt bílaumferð og því sé heppilegra fyrir Jónu að skokka inni í hverfinu fremur en t.d. meðfram Miklubrautinni. Þessar upplýsingar leiða til þess að nú orðið fer Jóna ekki út að skokka ef loftmengun mælist mikil. Hún fer þá í Elliðaárdalinn eða í Heiðmörkina og henni líður betur eftir að hún aflaði sér upplýsinganna og breytti venjum í samræmi við það. Sjá nánar hér.

Verndun náttúru

Hver og einn getur lagt fram

Við hjá Umhverfisstofnun hvetjum landsmenn til að vinna að verndun náttúrunnar saman með okkur. Nú stendur yfir sérstakt átak í friðlýsingum en þær eru ekki á könnu sérfræðinga einna, margir koma að slíkum verkefnum og hver og einn getur haft áhrif.

Ímyndum okkur konu sem stundar köfun, köllum hana Önnu. Anna er heilluð af lífríki hafsins í kringum Ísland og nýtir hverja frístund til köfunar. Einn daginn fer hún að kafa í vogi sem hún hefur ekki skoðað áður og rekur þá augun í hrúðurmyndun og lífríki sem hún telur einsdæmi. Í stað þess að segja öllum vinum sínum frá fundinum og skapa Miklubrautarumferð á „leynistaðnum“ neðansjávar tilkynnir Anna Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun um fund svæðisins. Réttilega ályktar hún að rask sem fylgi umferð geti skemmt hið viðkvæma lífríki sem þarna er að finna. Nokkru síðar er staðfest að um einstætt náttúrufyrirbrigði vegna jarðhita sé að ræða. Fær Anna sérstakt lof fyrir að bregðast hárrétt við um það leyti sem friðlýsingaferli hefst. Hverastrýturnar þykja einstakar og þarf sérstaka aðgæslu, ábyrgð og verklag til að viðhalda verndargildi svæðisins.

Verndun vatns, hafs og stranda

Að loknum Taggart!?

Klukkan er 0:42 aðfararnótt sunnudags, skammdegið er biksvart og aðeins nokkrir dagar til jóla. Sviðstjóri náttúru, hafs og vatns hjá Umhverfisstofnun, Ólafur A. Jónsson, er nýsofnaður eftir að hafa horft á Taggart-þátt í sænska ríkissjónvarpinu. Það síðasta sem hann velti fyrir sér áður en hann hvarf inn í draumalandið var hvort hann hefði ekki séð þennan sama Taggart-þátt oft áður. Stundum finnst Ólafi eins og þessir þættir séu allir eins.

En nú hefur veruleikinn raskað ró sviðsstjórans. Klukkan 0:42 er hringt frá Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnt um skipsstrand á Suðurnesjum. Allir sem geta komið að margbrotinni björgun þurfa að stökkva út í sortann ekki seinna en strax.

Landhelgisgæslunni tekst með aðstoð lögreglu og hjálparsveita að bjarga mannskapnum úr skipinu. Vitaskuld hefur björgun mannslífa forgang á allt annað en það gæti stefnt í slæmt umhverfisslys þar sem skipið er strandað og tankar þess fullir af mengandi olíu. Nú kemur sér vel að starfsfólk Umhverfisstofnunar æfir reglulega viðbrögð við bráðamengun með samstarfsaðilum. Ólafur ræsir út frekari mannskap sem ásamt öðrum viðbragðsaðilum leggur nótt við dag næstu sólarhringa. Með aðstoð margra frá mörgum ólíkum vinnustöðum endar sagan vel og lítil sem engin olía fer í sjóinn. Það síðasta sem Ólafur veltir fyrir sér áður en hann leggur höfuðið á koddann sinn eftir langa vinnutörn er hvort ekki sé tilvalið að sofna út frá Taggart. En hann er of þreyttur til að nenna að kveikja á sjónvarpinu.

Verndun heilnæms umhverfis

Stóraukin verkefni

Með breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir færðist ábyrgð á eftirliti með tiltekinni starfsemi frá heilbrigðisnefndum til Umhverfisstofnunar. Þar má nefna stærstu þauleldisbúin (svína-, kjúklinga- og eggjabú), lyfjaframleiðslu, malbikunarstöðvar ofl. Starfstöðvum sem Umhverfisstofnun hefur eftirlit með fjölgaði af þessum sökum um 36% milli áranna 2017 og 2018. Umhverfisstofnun hefur sett sér það markmið að auka samræmingu eftirlits innan sem utan stofnunarinnar. Með það að leiðarljósi hafa sérfræðingar úr öðrum teymum stofnunarinnar samnýtt 11 vettvangsferðir með teymi mengunareftirlits á árinu. Í 17 vettvangsferðum hefur heilbrigðisfulltrúi á viðkomandi svæði verið viðstaddir eftirlitið.

Sjálfbær nýting auðlinda

Heldur óskemmtilegt Íslandsmet

Við þurfum að taka sjálfbærni alvarlega. Magn úrgangs hefur vaxið verulega síðari ár. Úrgangur náði toppi rétt fyrir efnahagshrunið 2008 en minnkaði svo hratt. Með aukinni þenslu hefur magn úrgangs aftur vaxið og var vafsamt met slegið í Íslandssögunni þegar úrgangur fór yfir milljón tonn árið 2016.

Matarsóun er einnig gríðarlegt vandamál og vann starfsfólk Umhverfisstofnunar árið 2018 ötullega að kynningu á betri nýtni og minni sóun. Þá vakti mikla athygli í sjónvarpsþættinum „Hvað höfum við gert?“ þegar starfsmaður á kassa tók þriðju hverju vöru sem kúnni keypti í stórmarkaði og henti henni í ruslið! Slík eru einmitt örlög matvöru sem seld er innanlands, um 30% af mat er sóað hér á landi. Geta má þess að örlítið dró úr endurvinnslu heimilisúrgangs milli áranna 2016 og 2017. Frekari breytinga er þörf þótt margt gott hafi áunnist með aukinni vitund Íslendinga.

Grænt og framsýnt samfélag

Ökum græn og verum væn

Umhverfisstofnun stefnir að stórfjölgun vistvænna ökutækja innanlands á næstu árum. Þróun umliðinna ára gefur tilefni til bjartsýni er varðar orkuskipti samgangna. Í kjölfar ívilnana á sköttum og gjöldum og uppbyggingar á hleðslustöðvum hefur sala á rafbílum og tengiltvinnbílum tekið vel við sér. Hlutfall endurnýjanlegrar orku í vegasamgöngum er um 7,7% og fer vaxandi. Samkvæmt þingsályktun um orkuskipti er stefnt að því að þetta hlutfall verði orðið 40% árið 2030. Hér eru því tækifæri sem við megun ekki láta framhjá okkur fara.

Markviss upplýsingagjöf

Fimm fréttir á dag

Íslenskir fjölmiðlar vinna og birta að meðaltali tæplega fimm fréttir hvern dag ársins um störf Umhverfisstofnunar. Þetta kemur fram í gögnum frá Creditinfo í yfirliti um árið 2018.

Alls voru 1.602 fréttir birtar um Umhverfisstofnun á árinu. Flestar birtast í vefmiðlum. Að auki voru birtar 311 prentaðar fréttir á árinu og tæplega 200 útvarps- og sjónvarpsfréttir um Umhverfisstofnun.

Það er því ljóst að sérfræðingar Umhverfisstofnunar eru stanslaust í sviðsljósinu, enda búa þeir yfir mikilvægri kunnáttu, auk þess sem stofnunin leggur upp úr að eiga góð og upplýsandi samskipti við almenning – í gegnum fjölmiðla.

Fyrirmyndar stofnun

Trúverðugar fyrirmyndir

Það segir sig sjálft að Umhverfisstofnun þarf að vera til fyrirmyndar í samfélaginu í umhverfismálum. Ein birtingarmynd þess er samgöngumáti starfsmanna og áhrif samgangna þeirra á umhverfið. Ímyndum okkur kaldan haustmorgun á Íslandi. Í Reykjavík silast bílar áfram í mengunarskýi, hver á eftir öðrum. Aðeins brot bifreiðana er knúið vistvænum orkugjöfum, malbikið slitnar undan negldum dekkjum og svifrykið þyrlast upp. Athygli vekur að í flestum bifreiðanna situr aðeins einn Íslendingur en ekki er líklegt að starfsmenn Umhverfisstofnunar sé að finna inni í þessum bifreiðum.

Ástæðan er sú að hjá Umhverfisstofnun höfðu árið 2018 um 50% starfsmanna stofnunarinnar skuldbundið sig til vistvænna ferðalaga með svokölluðum samgöngusamningi. Það þýðir að starfsmaður hefur val um að ganga, skokka, fara á hjóli eða taka strætó í vinnu og úr henni. Þeir starfsmenn sem „nenna að leggja þetta á sig“ eru stoltir að leggja sitt fram til verndunar umhverfisins með ferðalagi sem eykur ekki losun. Starfsmaður sem gengur eða hjólar í vinnuna er líka líklegri til að njóta þess í hreysti og heilbrigði.